Kvennalið Selfoss vann góðan sigur á ÍA í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á JÁVERK-vellinum á Selfossi. Lokatölur urðu 3-1.
Selfyssingar komust yfir strax á 6. mínútu þegar Dagný Brynjarsdóttir átti frábæra stungusendingu inn á Guðmundu Brynju Óladóttur sem skoraði í stöngina og inn. Á 17. mínútu átti Eva Lind Elíasdóttir skot utan teigs sem hafnaði í þverslánni og tveimur mínútum síðar átti Dagný lúmskt skot úr teignum sem Caitlin Updyke, markvörður ÍA, varði vel.
Skagamenn höfðu ekki valdið Selfyssingum neinum vandræðum framan af leiknum en á 27. mínútu kom fyrsta markskot gestanna, skot utan af velli sem Alexa Gaul varði auðveldlega. Tveimur mínútum síðar jöfnuðu gestirnir hins vegar úr skyndisókn, sem tók reyndar sinn tíma, en Selfossvörnin var alveg úti á túni og Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði snyrtilegt – en alltof auðvelt mark.
Selfyssingar voru smá stund að jafna sig eftir þessa blautu tusku sem Skagakonur skelltu í andlitið á þeim en á 38. mínútu fékk Guðmunda boltann innfyrir vörn ÍA og launaði hún Dagnýju greiðann frá því í fyrra markinu með því að renna boltanum til vinstri á Rangæinginn sem skoraði auðveldlega.
Guðmunda átti síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar hún lék Skagavörnina sundur og saman á 43. mínútu en Updyke var vel á verði og kom í veg fyrir að Selfyssingar bættu við. 2-1 í hálfleik.
Síðari hálfleikur var mun jafnari en sá fyrri og Selfyssingar náðu ekki að þjarma eins mikið að Skagavörninni sem var virkilega óörugg undir pressu í fyrri hálfleik. Selfoss átti þó tvö færi snemma í seinni hálfleik, Dagný komst í prýðilega skotstöðu á 51. mínútu en hitti boltann illa eftir góða aukaspyrnu frá Kristrúnu Antonsdóttur og mínútu síðar átti Erna Guðjónsdóttir gott skot utan teigs eftir góða sókn Selfoss en Updyke varði.
Undir lok leiksins jókst sóknarþungi Selfoss aftur. Á 70. mínútu varði Updyke góðan skalla frá Dagnýju eftir hornspyrnu en rothögg Selfyssinga kom á 81. mínútu eftir frábæra sókn. Dagný renndi boltanum upp í vinstra hornið á Hrafnhildi Hauksdóttur og hún átti frábæra fyrirgjöf sem Celeste Boureille stangaði í netið. Þar með var sigurinn í höfn.
Eftir tvo sigra í röð eru Selfyssingar komnir upp í 5. sæti Pepsi-deildarinnar með 6 stig að loknum fjórum umferðum.
Selfoss og ÍA mætast aftur á Selfossvelli á föstudaginn kl. 19:15 í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins.