Fjögur bronsmerki afhent

Íþróttafélagið Suðri hélt 25 ára afmælishóf fyrir skömmu. Fjórir félagar voru heiðraðir fyrir góð störf í þágu Suðra.

Boðið var upp á afmælisköku og kaffi á afmælinu í Iðu og sveitarstjórnir níu sveitarfélaga auk HSK kepptu í boccia. Dómarar voru félagar úr Suðra en þeir koma frá níu sveitarfélögum á Suðurlandi og margir koma langt að á æfingar. Sigurvegari mótsins var lið Bláskógabyggðar eftir harða keppni við Rangárþing eystra.

Á sambandsþingi ÍF í vor var gullmerki Íþróttafélags fatlaðra afhent Þorbjörgu Vilhjálmsdóttur formanni Suðra og Svani Ingvarssyni fyrrverandi formanni. Í afmælisveislunni hlutu fjórir aðrir bronsmerki ÍF fyrir öflugt starf í þágu Suðra en það voru hjónin Karen Öder Magnúsdóttir og Óskar Jón Hreinsson og stjórnarkonur Suðra, Þórdís Bjarnadóttir og Guðrún Linda Björgvinsdóttir.

Stjórnarfólk ÍF, Margrét Kristjánsdóttir og Ólafur Þór Jónsson afhentu merkin og gjafakort fyrir bocciasett sem var gjöf ÍF til Suðra.

Fyrri greinStórólfur borinn út af Stórólfsvelli
Næsta greinLúxus íspinnar innkallaðir