Fjóla féll úr leik

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, féll í 400 m grindahlaupi á Norðurlandameistaramóti U23 ára í Svíþjóð í dag og lauk ekki keppni.

Fjóla var með forystu í sínum riðli þegar hún rakst utan í grind og féll í jörðina. „Ég var mjög vel stemmd fyrir hlaupið og ég veit eiginlega ekki hvað gerðist því allt í einu lá ég bara á brautinni,“ sagði Fjóla í samtali við sunnlenska.is. „Þegar ég náði loksins að standa upp voru keppinautarnir komnir á næstu grind þannig að ég settist bara niður í fýlu. Ég hef sjaldan verið eins svekkt.“

Mótið fer fram í Söderholmn og til stóð að Fjóla keppti í hástökki á morgun. Það er hinsvegar óvíst hvort af því verði þar sem hún meiddist í fallinu. „Ég er öll hrufluð frá hnjám og upp á öxl en þetta grær og ég mun rústa þessari grein að ári,“ sagði Fjóla.

Fyrri greinMilljónamiði í Reykholti
Næsta greinBjörn sigraði í hálfmaraþoni – Úrslit Brúarhlaupsins