Fjóla fjórða í grindinni

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð fjórða í 100 m grindahlaupi kvenna á Evrópumóti landsliða í frjálsum íþróttum á Laugardalsvellinum í dag.

Fjóla sigraði í sínum riðli með miklum yfirburðum og hljóp á 14,93 sekúndum. Þrír keppendur hlupu hraðar í seinni riðlinum og Fjóla varð því fjórða.

Hún hljóp síðan lokasprettinn í 4×400 m boðhlaupi þar sem íslenska sveitin kom önnur í mark eftir æsispennandi keppni á tímanum 3:48,81.

Haraldur Einarsson, Umf. Vöku, hljóp fyrsta sprettinn fyrir íslenska liðið í 4×400 m boðhlaupi karla en Ísland varð í 6. sæti á tímanum 3:18,06 mín.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Umf. Laugdæla, varð í 8. sæti í 3000 m hindrunarhlaupi karla. Hann hljóp einnig í skarðið í 110 m grindahlaupi þar sem liðsfélagi hans forfallaðist og varð í 13. sæti á 22,31 sek.

Agnes Erlingsdóttir, Umf. Laugdæla, varð í 12. sæti í 1500 m hlaupi á 5:14,60 mínútum.

Í stigakeppninni varð Ísland í 4. sæti með 411 stig en Ísrael og Kýpur voru í efstu tveimur sætunum og fara upp í 2. deild.

Fyrri greinEinn sviptur ökuréttindum
Næsta greinGóður leikur gegn sterku liði