Fjóla Íslandsmeistari í 100 m grindahlaupi

Fjóla Signý Hannesdóttir HSK/Selfoss, tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í 100 m grindahlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fer á Selfossi.

Fjóla hljóp á 14,46 sek. Hún varð síðan þriðja í langstökki, stökk 5,61 m og Guðrún Heiða Bjarnadóttir varð tíunda í langstökkinu með 4,84 m.

Keppendur frá HSK/Selfoss náðu margir hverjir góðum árangri en aðstæður voru erfiðar á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi í dag í hífandi roki og öskumistri.

Vigdís Guðjónsdóttir varð önnur í spjótkasti þegar hún kastaði 43,46 m en aðstæður voru erfiðar í spjótkastinu eins og svo mörgum öðrum greinum vegna vinds. Anna Pálsdóttir varð fjórða í spjótkastinu með 36,23 m og Andrea Victorsdóttir sjöunda með 26,05 m. Anna varð sjötta í sleggjukasti, kastaði 29,97 m.

Hreinn Heiðar Jóhannsson varð þriðji í langstökki, stökk 6,58 m og Agnes Erlingsdóttir varð þriðja í 400 m hlaupi á 64,51 sek. Skammt á eftir henni kom Sólveig Helga Guðjónsdóttir, í fimmta sæti á 64,84 sek.

Haraldur Einarsson varð þriðji í 400 m hlaupi, hljóp 51,29 sek og hann varð fimmti í 100 m hlaupi á 11,02 sek. Kristinn Þór Kristinsson varð áttundi í 400 metrunum, hljóp á 53,29 sek.

Þrír keppendur frá Selfossi komust í úrslit í 100 m hlaupi kvenna. Guðrún Heiða varð fjórða á 12,61 og systurnar Þórhildur Helga og Sólveig Helga Guðjónsdætur í fimmta og sjötta sæti á 12,81 og 12,90 sek.

Dagur Fannar Magnússon var fjórði í sleggjukasti þegar hann kastaði 43,06 m.

Theodóra Jóna Guðnadóttir varð fimmta í stangarstökki, stökk 2,32 m og Guðmundur Kristinn Jónsson varð sjöundi í spjótkasti með 47,37 m.

Sveit HSK/Selfoss varð í 4. sæti í 4×100 m hlaupi karla á 46,95 sek en kvennasveitin féll úr leik þar sem síðasta skiptingin mistókst.

Selfyssingurinn Örn Davíðsson sigraði í hástökki eftir harða keppni og fór yfir 1,93 m. Örn keppir fyrir hönd FH. Hreinn Heiðar varð í 4.-5. sæti í hástökkinu, stökk 1,90 m.

Að fyrri keppnisdegi loknum er HSK/Selfoss í fyrsta sæti í stigakeppni kvenna með 7.376 stig og 130 stiga forskot á FH. Karlalið HSK/Selfoss er í fjórða sæti með 4.573 stig. Í samanlögðum stigum hafa FH-ingar örugga forystu með 16.569 stig en HSK/Selfoss er í 2. sæti með 11.949 stig.

Fyrri greinFriðarhlaup á vallarvígslu
Næsta greinMeð níu tær inn í úrslitin