Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut í dag á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum í frjálsíþróttahöllinni í Reykjavík. Fjóla sigraði með 3.793 stig og bætti sig í öllum greinum þrautarinnar.
Fjóla Signý er í fínu formi um þessar mundir og náði hún frábærum árangri á þessu fyrsta móti ársins. Í fyrstu grein mótsins bætti hún eigið HSK met í 60 m grindahlaupi með tímanum 9,02 sek. Því næst bætti hún sig um sex sentimetra í hástökki með því að vippa sér yfir 1,71 m en það er fimmti besti árangur íslenskrar konu frá upphafi í hástökki innnahúss.
Kúlunni varpaði hún 9.91 m sem er bæting um 25 sm, því næst bætti hún sinn besta árangur um 18 sm í langstökki með því að stökkva 5,35 m. Að lokum hljóp Fjóla 800 m hlaup á 2:18,74 mín sem er bæting um tæpar 6 sekúndur.
Fjóla bætti sig um 319 stig í þrautinni og var aðeins 16 stigum frá HSK meti Ágústu Tryggvadóttur en árangur Fjólu er fjórði besti árangur íslenskrar konu frá upphafi.
Óhætt er að segja að Fjóla kveðji Ísland með stæl en hún flytur til Svíþjóðar í fyrramálið þar sem hún mun stunda háskólanám og æfa frjálsar undir stjórn eins besta grindahlaupsþjálfara Evrópu.