Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss fór fram í Laugardalshöllinni um helgina. Liðsmenn HSK/Selfoss komust átta sinnum á verðlaunapall á mótinu.
Fjóla Signý Hannesdóttir varð önnur í 400 m hlaupi kvenna á nýju HSK meti, 59,40 sekúndum. Tíminn er HSK-met í ungkvennaflokki og kvennaflokki. Fjóla varð önnur í 60 m grindahlaupi á 9,39 sek og þriðja í 200 m hlaupi á tímanum 26,65 sek, þar sem hún bætti kvennamet HSK um 0,01 sekúndu. Á hæla Fjólu í 200 metrunum kom Sólveig Helga Guðjónsdóttur á 26,81 sek í 4. sæti.
Anton Kári Kárason varð í 3. sæti í hástökki. Hann stökk 1,91 m líkt og FH-ingurinn Örn Davíðsson frá Selfossi. Örn hafði stokkið yfir 1,88 í fyrstu tilraun en Anton þurfti tvær tilraunir við þá hæð og það skildi þá að.
Agnes Erlingsdóttir varð þriðja í 800 m hlaupi á tímanum 2:18,52 mín og Kristinn Þór Kristinsson varð annar í 800 m hlaupi karla á 2:00,07 mín. Kristinn varð fimmti í 400 m hlaupi og kom þar í mark á nýju HSK-meti í ungkarlaflokki, 51,17 sek.
Gamla brýnið Ólafur Guðmundsson varð annar í 60 m grindahlaupi karla á 8,70 sek og kvennasveit HSK/Selfoss varð í 3. sæti í 4×400 m boðhlaupi á tímanum 4:13,18 mín.
ÍR-ingar höfðu mikla yfirburði í stigakeppni mótsins með 30.696 stig en lið HSK/Selfoss varð í 2. sæti með 14.102 stig.