Keppendur HSK/Selfoss rökuðu inn verðlaunum á seinni degi Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum 15-22 ára í Kaplakrika í dag.
Fjóla Signý Hannesdóttir vann tvö gullverðlaun í dag í flokki 19-22 ára ungkvenna til viðbótar við gullið í 400 m grindahlaupinu í gær. Fjóla sigraði í hástökki þegar hún stökk yfir 1,64 m og í 100 m grindahlaupi þar sem hún hljóp á 15,28 sek. Þá varð hún önnur í þrístökki með stökk upp á 10,97 m.
Jóhann Erlingsson vann gull og silfur í gær og hann bætti enn frekar í verðlaunasafnið í dag í flokki sveina 15-16 ára. Jóhann sigraði í kúluvarpi þegar hann kastaði 14,86 m. Þá varð hann þriðji í spjótkasti með kast upp á 44,98 m en Guðmundur Kr. Jónsson varð annar, kastaði 50,63 m.
Agnes Erlingsdóttir sigraði í 800 m hlaupi ungkvenna, hljóp á 2:26,71 mín og Bjarni Már Ólafsson sigraði í þrístökki ungkarla, stökk 13,46 m.
Anton Kári Kárason sigraði örugglega í hástökki 17-18 ára drengja, stökk 1,90 m. Aron bróðir hans varð annar í hástökki ungkarla, stökk 1,84 m.
Eva Lind Elíasdóttir sigraði í kúluvarpi í meyjaflokki, 15-16 ára. Hún tryggði sér sigurinn með síðasta kasti sínu, 11,56 m.
Þórhildur Helga Guðjónsdóttir varð önnur í 200 m hlaupi stúlkna 17-18 ára, hljóp á 26,44 sek.
Ingólfur Guðjónsson varð annar í kúluvarpi ungkarla, kastaði 13,48 m og Kristinn Þór Kristinsson varð þriðji í 800 m hlaupi ungkarla á tímanum 1:57,39 mín.
Anna Pálsdóttir varð þriðja í kúluvarpi ungkvenna með kast upp á 10,19 m. Hún hlaut síðan silfur í spjótkasti, kastaði 37,19 m en þar varð Eyrún Halla Haraldsdóttir þriðja, kastaði 28,05 m.