Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð í 3. sæti í 400 m hlaupi innanhúss á Raka Spåret frjálsíþróttamótinu sem fram fór í Stokkhólmi í gær.
Fjóla Signý keppti í 60 m og 400 m hlaupi. Hún náði sér ekki á strik í 60 m hlaupinu en vann sinn riðil í 400 m og endaði í 3. sæti á tímanum 57,55 sem er ekki langt frá hennar besta. Þetta var hennar fyrsta 400 m hlaup á árinu.
Fjórir íslenskir keppendur tóku þátt í mótinu en auk Fjólu voru það þau Hafdís Sigurðardóttir, Stefanía Hákonardóttir og Trausti Stefánsson. Stefanía og Trausti eru, eins og Fjóla, búsett í Svíþjóð og stunda æfingar þar af kappi en Hafdís kom frá Íslandi til þess að taka þátt í mótinu. Svo skemmtilega vildi til að þau kepptu öll í 400 m hlaupi í gær.
Hafdís sigraði bæði í langstökki og 400 m hlaupi þar sem hún hljóp á persónulegu meti, 55,89 sek. Hún stökk 6,11 m í langstökkinu. Hafdís keppti einnig í 60m, þar sem hún komst í úrslit og endaði í 5. sæti.
Trausti varð annar í 400 m hlaupinu en Stefanía náði sér ekki á strik í sínu hlaupi.