Fjóla Signý afreksmaður ársins

Fjóla Signý Hannesdóttir var í kvöld útnefnd afreksmaður ársins 2011 hjá frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss á aðalfundi deildarinnar.

Fjóla Signý átti frábæru gengi að fagna í fyrra, bætti sig í mörgum greinum og vann tugi verðlauna á stærstu frjálsíþróttamótum ársins. Fjóla var á dögunum valin frjálsíþróttamaður HSK og íþróttamaður HSK árið 2011. Fjóla Signý er nú við nám og æfingar í Svíþjóð en móðir hennar, Íris Guðmundsdóttir, tók við verðlaununum fyrir hennar hönd.

Spretthlauparinn Sólveig Helga Guðjónsdóttir hlaut framfarabikar eldri flokks en hún náði glæsilegum árangri á síðasta ári.

Sigþór Helgason er afreksmaður deildarinnar hjá 14 ára og yngri en hann er sterkur hástökkvari og spjótkastari. Teitur Örn Einarsson fékk framfarabikarinn í þessum flokki en hann setti m.a. tvö Íslandsmet á árinu í sínum aldursflokki.

Bikara fyrir góða ástundun fengu Dagný Lísa Davíðsdóttir, Arndís María Finnsdóttir, Hildur Helga Einarsdóttir og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir.

Fjárhagur deildarinnar einstaklega góður
Helgi S. Haraldsson og Páll Leó Jónsson fluttu skýrslu stjórnar og kynntu ársreikning ársins 2011. Þar kom fram að fjárhagur deildarinnar er einstaklega góður en rúmlega 1,4 milljón króna hagnaður var af rekstri deildarinnar á síðasta ári og á deildin nú tæpar sex milljónir króna í handbæru fé. Geri aðrir betur.

Helgi var endurkjörinn formaður, sautjánda árið í röð og nýir stjórnarmenn voru kjörnir í stað Páls Leó og Írisar Sigrid Guðmundsdóttur sem hafa setið í stjórninni um árabil. Nýjar inn í stjórn komu Svanhildur Bjarnadóttir og Linda Björg Perludóttir.

stjorn_frjlsumfs2012sag_562943663.jpg
Ný stjórn frjálsíþróttadeildarinnar. F.v. Linda Björg Perludóttir, Svanhildur Bjarnadóttir, Dagur Fannar Magnússon, Þuríður Ingvarsdóttir, Helgi S. Haraldsson, Sólveig Guðjónsdóttir og Guðjón Sigfússon. sunnlenska.is/Sigríður Anna Guðjónsdóttir

Fyrri greinBabacar semur til þriggja ára
Næsta greinSunnlenskir lögreglumenn vilja betri þjálfun og búnað