Fjóla Signý í feiknaformi

Liðsmenn HSK/Selfoss náðu góðum árangri á Áramóti Fjölnis, sem var síðasta frjálsíþróttamót ársins 2011. Sjö keppendur HSK/Selfoss uppskáru tvö gull, fimm silfur, fjögur brons og tvö HSK met.

Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi er í góðu formi þessa dagana hún keppti í þremur greinum og bætti sig í þeim öllum og setti tvö HSK met. Hún byrjaði á að stökkva 1,66 m í hástökki og bætti sig um 1 sm og var grátlega nærri því að fara 1,69 m. Hún varð önnur á jöfnu. Því næst skellti hún sér í 60 m grindahlaup, kom í mark í mjög góðu hlaupi, sjónarmun frá sigri, á nýju HSK meti, tíminn 9,06 sek. Gamla metið var 9,09 sek.í eigu Bryndísar Evu Óskarsdóttur, Umf. Selfoss. Að síðustu tók Fjóla brons í 400 m hlaupi á tímanum 57,91 sek í hörku hlaupi þar sem úrslit réðust á síðustu metrunum. Þetta er bæting á hennar eigin HSK meti en það var 58,35 sek.

Eva Lind Elíasdóttir, Umf. Þór, keppti í fjórum greinum, hún sigraði kúluvarpið örugglega með góðu kasti upp á 10,71m, tók silfur í 60 m hlaupi á 8,48 sek og í þrístökki með 9,84 m stökki. Andrea Sól Marteinsdóttir, Selfossi, varð önnur í langstökki með 4,45 m og þriðja í þrístökki með 9,67 m. Þær Eva Lind og Andrea Sól eru í Afrekshópi FRÍ í kúluvarpi.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir, spretthlaupari frá Selfossi, varð önnur í 200 m hlaupi á tímanum 27,71 sek og þriðja í 60 m hlaupi er hún rann skeiðið á 8,62 sek. Kristín Rut Arnardóttir, Selfossi, varð þriðja í langstökki með 16 cm bætingu, stökk 4,20 m. Að síðustu sigraði Ólafur Guðmundsson, Laugdælum, í kúluvarpi er hann þeytti henni 12,90m.

Fyrri greinBrenndist á andliti
Næsta greinKjartan samdi til tveggja ára