Fjóla Signý Íslandsmeistari í fimmtarþraut

Fjóla Signý fagnar sigri í dag. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð í dag Íslandsmeistari í fimmtarþraut kvenna á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum í Laugardalshöllinni.

Fjóla Signý hlaut 2.740 stig í þrautinni sem þar að auki er Íslandsmet í flokki 35-39 ára kvenna og tími hennar í 60 m grindahlaupi, 9,93 sek, er einnig Íslandsmet í sama aldursflokki. Fjóla bætti einnig HSK met í þremur öðrum greinum í flokki 35-39 ára, hljóp 800 m hlaup á 2:48,30 mín, stökk 1,48 m í hástökki og 4,62 m í langstökki.

Fleiri keppendur HSK náðu góðum árangri á mótinu í dag og náðu í Íslandsmeistaratitla. Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþf. Garpi, sigraði í fimmtarþraut 16-17 ára stúlkna og hlaut 3.086 stig og Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í fimmtarþraut 15 ára stúlkna og hlaut 3.041 stig.

Keppni í sjöþraut karla og pilta lýkur á morgun en eftir fyrri keppnisdag eru Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, og Helgi Reynisson, Þjótanda, í toppbaráttunni í flokki pilta 16-17 ára.

Helga Fjóla Erlendsdóttir og Anna Metta Óskarsdóttir urðu Íslandsmeistarar í fimmtarþraut í sínum aldursflokkum. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson
Fyrri greinSvekkjandi tap á heimavelli
Næsta greinGóður lokakafli tryggði Hamri sigur