Fjóla Signý Íslandsmeistari í sjöþraut

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í sjöþraut kvenna á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum á Akureyri.

Fjóla sigraði með 4.689 stig og bætti sig um 407 stig í greininni. Hún náði persónulegum bætingum í kúluvarpi, langstökki, spjótkasti og 800 m hlaupi og sagðist í samtali við sunnlenska.is vera mjög ánægð með árangurinn. Samkeppnin hafi ekki verið mikil og aðstæðurnar á Akureyri voru ekki þær bestu þar sem hitastigið var um 5 gráður.

„Ég er líka ánægð með að hafa náð svona góðri bætingu þar sem langt er liðið á sumarið. Ég stefndi reyndar á að bæta mig í hástökki og grindahlaupi en lagði minni áherslu á hinar greinarnar, þannig að það var frekar kaldhæðnislegt að ná bara bætingu í þeim,“ sagði Íslandsmeistarinn ennfremur.

Fyrri greinHamar tapaði fyrir austan
Næsta greinNíu teknir fyrir hraðakstur