Fjóla Signý og Jón Daði íþróttafólk Árborgar

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir og knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson, bæði úr Umf. Selfoss, voru kosin íþróttakona og íþróttakarl sveitarfélagsins Árborgar árið 2012.

Kjörinu var lýst á uppskeruhátíð Íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands í kvöld.

Mjótt var á mununum hjá konunum en Fjóla Signý sigraði með 178 stig og önnur varð fimleika- og handknattleikskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir með 174 stig. Þriðja varð knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir með 97 stig.

Hjá körlunum sigraði Jón Daði með yfirburðum annað árið í röð en hann fékk 246 stig. Kylfingurinn Hlynur Geir Hjartarson varð annar með 127 stig og taekwondo-maðurinn Daníel Jens Pétursson þriðji með 78 stig.

Fjóla Signý Hannesdóttir náði frábærum árangri á frjálsíþróttavellinum en hún býr í Svíþjóð yfir vetrartímann og æfir undir leiðsögn eins fremsta grindahlaupsþjálfara í heimi. Hún sópaði að sér verðlaunum á öllum mótum ársins og bætti sig í öllum greinum.

Fjóla varð Íslandsmeistari í 400 m grindahlaupi, 100 m grindahlaupi og hástökki utanhúss og fimmtarþraut og hástökki innanhúss. Þá varð hún bikarmeistari í 100 m og 400 m grindahlaupi. Hún náði einnig frábærum árangri erlendis, á mótum bæði í Svíþjóð og á Spáni og varð meðal annars í 2. sæti á sænska meistaramótinu í fjölþrautum þar sem hún var örfáum stigum frá 1. sætinu. Auk þess keppti hún með landsliði Íslands í 4×400 m boðhlaupi sem vann bronsverðlaun á Grand Prix móti í Noregi.

Jón Daði Böðvarsson átti frábært ár sem knattspyrnumaður sýndi það að hann er í hóp efnilegustu og jafnvel bestu knattspyrnumanna á Íslandi. Jón Daði spilaði frábærlega í liði Selfoss í Pepsi deildinni 2012 og var algjör lykilmaður í liði Selfoss. Í lok tímabilsins var Jón Daði svo valinn efnilegasti leikmaður Pepsí deildarinnar af þjálfurum og leikmönnum deildarinnar. Hann var einnig kosinn leikmaður ársins hjá knattspyrnudeild Selfoss.

Allt þetta ár hefur Jón Daði verið fastamaður í unglingalandsliðum Íslands, farið með þeim út um allan heim og staðið sig frábærlega. Í nóvember kom svo stóra viðurkenningin er Jón Daði var kallaður inn í A-landslið Íslands en hann er fyrsti leikmaður Selfoss sem fær tækifæri í A-landsliði.

Þegar að keppnistímabilinu á Íslandi lauk var nokkuð ljóst að hann myndi fara í atvinnumennsku út í hinn stóra heim og í desember gerði hann fjögurra ára samning við norska úrvalsdeildarliðið Viking í Stavangri.

Fyrri greinRafmagn víðast komið á aftur
Næsta greinTíunda metið á árinu hjá Styrmi Dan