Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir og knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson voru útnefnd íþróttafólk ársins hjá Ungmennafélagi Selfoss á aðalfundi félagsins í kvöld.
Jón Daði átti frábært ár í fyrra sem hann hóf með lánstíma hjá AGF í Danmörku. Hann lék frábærlega í liði Selfoss í 1. deildinni í sumar og var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar af þjálfurum og leikmönnum hennar. Í október var Jón Daði í fyrsta sinn valinn í U21 árs landslið Íslands en hann hefur einnig leikið með U19 ára landsliðinu.
Fjóla Signý náði glæsilegum árangri á árinu 2011, varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari í sínum greinum en alls vann hún 31 verðlaun á átta stærstu mótum ársins og setti átján HSK met á árinu. Þá var hún valin í A-landslið Íslands og stóð sig frábærlega í Evrópukeppni landsliða, varð þriðja í 400 m hlaupi og landaði silfri með boðhlaupssveit Íslands í 4×400 m boðhlaupi. Þá náði hún góðum árangri á erlendri grundu á sterkum mótum í Svíþjóð og Finnlandi.
Jón Daði Böðvarsson í leik gegn Haukum í 1. deildinni í fyrra. sunnlenska.is/Hafliði Breiðfjörð