Meistaramót Íslands fór fram í Laugardalshöll um liðna helgi og átti HSK/Selfoss tíu keppendur á mótinu. Niðurstaða helgarinnar var ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun auk átta persónlegra bætinga, fjögurra ársbætinga og þriggja HSK meta.
Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, bætti sinn besta árangur á árinu í 60 m grindahlaupi og varð önnur. Hún keppti einnig í 60 m hlaupi og bætti sinn ársbesta árangur er hún kom í mark á 8,23 se. og vann sér rétt til að hlaupa í B-úrslitum.
Í kúluvarpi bætti Eyrún Halla Haraldsdóttir, Selfossi, sig um 25 cm er hún varpaði kúlunni 11,94 m og tók brons. Guðbjörg Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra, bætti sig hressilega með því að kasta 10,19 m og setja Íslandsmet í sínum fötlunarflokki. Ragnheiður Guðjónsdóttir, Hrunamönnum, sem er einungis 15 ára, bætti sig einnig kastaði 8,80 m, Harpa Svansdóttir, Selfossi, bætti sig hressilega í þrístökkinu er hún stökk 10,72 m og var sjö sentimetrum frá bronssætinu.
Guðjón Baldur Ómarsson, Selfossi, keppti í 60 m hlaupi og bætti sinn besta árangur um fimm sekúndubrot, hljóp á 7,88 sek. Hann bætti sig einnig í langstökkinu með 5,63 m. Þar stökk Sverrir Heiðar Davíðsson Selfossi, 5,87 m. og bætti sig innanhúss. Sverrir bætti sig einnig í kúluvarpi með kast upp á 10,01 m.
HSK/Selfoss varð í sjöunda sæti af ellefu liðum í stigakeppni félaga.
óg