Fjóla Signý Hannesdóttir HSK/Selfoss varði í dag Íslandsmeistaratitil sinn í 100 m grindahlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fer á Laugardalsvellinum.
Fjóla stórbætti sig í hlaupinu þrátt fyrir töluverðan mótvind. Hún hljóp á 14,47 sekúndum sem er 0,01 sekúndu frá 25 ára gömlu HSK meti sem Þórdís Gísladóttir setti árið 1987.
Agnes Erlingsdóttir varð önnur í 400 m hlaupi kvenna á 58,33 sek og Vigdís Guðjónsdótir varð önnur í spjótkasti kvenna, kastaði 42,11 m. Þá nældi Hreinn Heiðar Jóhannsson sér sömuleiðis í silfurverðlaun í hástökki með stökk upp á 1,90 m.
Ólafur Guðmundsson varð þriðji í 110 m grindahlaupi karla á 16,23 sek og Dagur Fannar Magnússon varð þriðji í sleggjukasti karla þegar hann kastaði 45,82 m.
Mótinu lýkur á morgun.