Systkinin Fjóla Signý og Guðmundur Marteinn Hannesarbörn frá Stóru-Sandvík í Flóa mættust í dag í æsispennandi grindahlaupsáskorun í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika í Hafnarfirði.
Fjóla Signý er grindahlaupari og landsliðskona í frjálsum íþróttum en Guðmundur er fyrirliði knattspyrnuliðs Gróttu. Aðdragandinn að keppninni í dag er áralangur metingur þeirra á milli um hvor íþróttagreinin sé merkilegri, frjálsar íþróttir eða knattspyrna.
Fjöldi fólks varð vitni að uppgjöri systkinanna í Kaplakrika í dag en þau hlupu 60 metra grindahlaup yfir kvennagrindur, sem eru 84 cm á hæð.
Svo fór að Fjóla Signý vann nokkuð öruggan sigur. Hún hljóp á 9,44 sekúndum en Guðmundur á 10,53 sek. Guðmundur byrjaði reyndar geysilega vel og var á undan yfir fyrstu grindina en rak hnéð í grind númer tvö og missti við það hraðann.
„Besti sigur lífs míns,“ sagði Fjóla kampakát eftir hlaupið sem sjá má hér að neðan.