Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í tveimur greinum á Kastmóti FH í frjálsum íþróttum sem haldið var í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld.
Góður árangur náðist á mótinu en vindur var of mikill í mörgum greinum til að bætingar fáist staðfestar.
Fjóla Signý sigraði í 200 m hlaupi á 26,37 sek og í langstökki þar sem hún stökk 5,53 m. Haraldur Einarsson, HSK, krækti einnig í gull en hann sigraði í 400 m hlaupi á 51,95 sek.
Dagur Fannar Magnússon, Umf. Selfoss, varð annar bæði í sleggjukasti og spjótkasti. Hann kastaði sleggjunni 45,96 m og spjótinu 38,04 m.
Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Umf. Selfoss, varð þriðja í 400 m hlaupi á 64,91 sek og Ólafur Guðmundsson, HSK, varð þriðji í langstökki, stökk 5,89 m og í kúluvarpi þar sem hann kastaði 13,22 m. Þá varð Thelma Björk Einarsdóttir, Umf. Selfoss, þriðja í kúluvarpi en hún kastaði 9,88 m.
Einnig var keppt í unglingaflokkum og þar náðu Sunnlendingar góðum árangri. Halla María Magnúsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í 60 m hlaupi 14 ára stúlkna á tímanum 8,45 sek og í spjótkasti 13 ára þar sem hún kastaði 39,21 m.
Styrmir Dan Steinunnarson, Umf. Þór, sigraði í 60 m hlaupi 14 ára pilta á 8,47 sek. Teitur Örn Einarsson, Umf. Selfoss, sigraði í spjótkasti 14-15 ára pilta en hann kastaði 44,62 m.