Þessa vikuna er svokölluð íþróttavika Evrópu og hefst dagskrá hennar í Árborg í dag með fyrirlestri Erlu Björnsdóttur um betri svefn.
Fyrirlestur Erlu, Betri svefn – grunnstoð heilsu, verður í austurrými Vallaskóla á Selfossi og hefst kl. 20. Aðgangur er ókeypis.
Ýmislegt fleira er á dagskrá vikunnar í Árborg, opnar æfingar hjá Frískum Flóamönnum og í Crossfit Selfoss. Fjölskyldutíma í íþróttahúsinu á Stokkseyri, Zumba í Sunnulækjarskóla og jógatími með Hafsteini Viktorssyni. Þá verða fyrirlestrar í boði um öndun og næringu og heilsu.
Einnig verða reglulegir tímar í Heilsueflingu 60+, vinavika hjá fimleikadeild Selfoss og opnar æfingar fyrir börn og unglinga hjá íþróttafélögunum svo fátt eitt sé nefnt.