Fjölbreyttum frjálsíþróttaskóla lokið

Krakkarnir í frjálsíþróttaskólanum 2019 ásamt umsjónarmönnum og gestaþjálfurum. Ljósmynd/Aðsend

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ var haldinn á Selfossi dagana 23. – 27. júni. Alls voru 49 frískir krakkar á aldrinum 11-14 ára sem kláruðu skólann. Skólinn heppnaðist mjög vel og fóru krakkarnir ánægðir heim.

Flest börnin komu frá HSK svæðinu en í ár voru krakkar frá Vík, Hafnarfirði, Reykjavík, Kópavogi, Patreksfirði, Búðardal og Blönduósi.

Markmið skólans er að kynna og breiða út frjálsíþróttir á Íslandi. Dagskrá skólans var mjög fjölbreytt þar sem til að mynda var kvöldvaka, fræðsla um svefn og viðtal við afreksíþróttamanninn Arnar Pétursson. Ásamt því var fjölbreytt hreyfing allt frá hefbundnum frjálsíþróttaæfingum, til sundsprells og ratleiks. Hlaupadrottningin Silja Úlfarsdóttir hélt fyrirlestur um ofþjálfun ásamt að kenna börnunum tækni í hlaupum á æfingu. Meðal gestaþjálfara voru sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson og Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Íslandsmethafi í þrístökki.

Frjálsíþróttaskólanum lauk með velheppnuðu frjálsíþróttamóti á fimmtudeginum þar sem að nokkrir persónulegir sigrar unnust. Eftir mótið var haldin grillveisla og fengu krakkarnir viðurkenningaskjöl fyrir þátttöku í skólanum. Krakkarnir kvöddust sátt og sæl eftir skemmtilega viku.

Umsjónarmenn skólans vilja þakka Sveitarfélaginu Árborg og Umf. Selfoss fyrir velvild í garð skólans sem og þeim fyrirtækjum sem lögðu skólanum lið en það voru MS, Nettó, Sölufélag garðyrkjubænda, Kjúklingabúið Vor, Hafnarnes Ver, Almarsbakarí, Guðni bakari, Myllan, Kjörís, Landsbankinn og Kökugerð HP.

Fyrri greinSterkur sigur Stokkseyringa
Næsta greinNíutíu börn í sumarlestri á Selfossi