Landsliðsþjálfarar í hópfimleikum hafa valið landsliðshópa fyrir Evrópumótið sem fram fer á Íslandi 15.-18. október næstkomandi. Fjöldi Selfyssinga er í liðum Íslands.
Í kvennalandsliðinu eru Selfyssingurinn Eva Grímsdóttir, Stjörnunni og Rakel Nathalie Kristinsdóttir frá Árbæjarhjáleigu en hún æfir með Gerplu. Hugrún Hlín Gunnarsdóttir, Umf. Selfoss, var svo valin í blandaða liðið sem og Selfyssingurinn Aron Bragason sem æfir með Gerplu.
Einnig er keppt í unglingaflokki á mótinu og þar skipa Selfyssingar stærstan hluta blandaða liðsins. Selfyssingarnir í hópnum eru Eysteinn Máni Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson, Rikharð Atli Oddsson, Ægir Atlason, Alma Rún Baldursdóttir, Anna María Steingrímsdóttir og Linda Guðmundsdóttir. Auk keppendanna er Selfyssingur í þjálfarateyminu en Tanja Birgisdóttir er einn þjálfara liðsins.
Einn keppandi frá Umf. Selfoss er í drengjalandsliðinu en það er Unnar Freyr Bjarnarson og Selfyssingurinn Nadía Björt Hafsteinsdóttir er í stúlknaliðinu en hún æfir með Gerplu.