Fjölnir marði Ægi – Selfyssingar töpuðu

Ægismenn fengu á sig svekkjandi mark á 6. mínútu uppbótartímans. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppni í Lengjudeild karla hófst í kvöld. Ægir tók á móti Fjölni í fyrsta leik Ægismanna í næst efstu deild á meðan Selfyssingar fengu Aftureldingu í heimsókn.

Það var góð stemning í Þorlákshöfn og Ægismenn mættu af krafti inn í Íslandsmótið. Þeir voru sterkari í fyrri hálfleik en bæði lið áttu góðar sóknir og Fjölnir lét meðal annars reyna á tréverkið á marki Ægis. Baráttan hélt áfram í seinni hálfleik og Ægismenn voru mjög óheppnir að ná ekki að skora. Það kom svo heldur betur í bakið á þeim í uppbótartímanum þegar Fjölnir fékk vægast sagt ódýra vítaspyrnu á 96. mínútu og úr henni skoruðu þeir sigurmarkið. Lokatölur 0-1 og Ægismenn mjög svekktir að fara stigalausir út úr leiknum.

Á gervigrasinu á Selfossi var Afturelding í heimsókn. Arnór Gauti Ragnarsson skoraði gegn sínum gömlu félögum á 29. mínútu og kom Aftureldingu yfir en Guðmundur Tyrfingsson jafnaði fyrir Selfoss með marki úr vítaspyrnu á 55. mínútu. Selfyssingar fengu færi til að bæta við mörkum en það voru gestirnir sem voru sterkari á lokakaflanum. Þeir bættu við marki úr vítaspyrnu á 80. mínútu og tryggðu sér svo 1-3 sigur með marki á lokamínútunni.

Önnur umferð hefst á fimmtudag en þá heimsækir Ægir Njarðvík. Á föstudag bregða Selfyssingar sér svo í Breiðholtið og sækja Leikni heim.

Fyrri greinGæsluvarðhald framlengt um tvær vikur
Næsta greinSauðfjárbændur í Hrunamannahreppi álykta vegna riðuveiki