Fjölnir tók fyrsta leikinn

Jose Medina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Einvígi Hamars og Fjölnis í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta hófst í kvöld í Hveragerði. Eftir hnífjafnan leik höfðu Fjölnismenn nauman sigur.

Leikurinn var jafn allan tímann, liðin skiptust á um að hafa frumkvæðið en náðu aldrei meira en níu stiga forystu. Staðan var 38-39 í hálfleik. Hamar leiddi 65-63 þegar 4. leikhluti hófst en Fjölnir komst strax yfir og var skrefinu á undan allan 4. leikhlutann. Hamar jafnaði 88-88 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en það reyndist hins vegar síðasta karfa Hamars sem náði ekki að nýta síðustu sóknirnar og Fjölnir sigraði 88-91.

Jose Medina var stigahæstur hjá Hamri með 27 stig og 10 stoðsendingar, Brendan Howard skoraði 20 en Ragnar Nathanaelsson var framlagshæstur, skoraði 16 stig og tók 17 fráköst.

Liðin mætast næst í Grafarvoginum á mánudaginn en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki mun mæta Sindra eða Skallagrími í einvígi um laust sæti í úrvalsdeildinni.

Hamar-Fjölnir 88-91 (17-16, 21-23, 27-24, 23-28)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 27/4 fráköst/10 stoðsendingar, Brendan Howard 20/6 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 16/17 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 12, Mirza Sarajlija 6/5 stoðsendingar, Elías Bjarki Pálsson 5, Daði Berg Grétarsson 2.

Fyrri greinFjóla Signý kaupir Fætur toga
Næsta greinÁtta marka sveifla í seinni hálfleik