Hamarsmenn eru komnir niður í 10. sæti Iceland Express-deildar karla í körfubolta eftir 73-80 tap gegn Fjölni á heimavelli í kvöld.
Hvergerðingar voru atkvæðameiri í fyrri hálfleik og höfðu ellefu stiga forskot í hálfleik, 43-32. Sá munur fauk út um gluggann í 3. leikhluta. Forskot Hamars varð mest í upphafi 3. leikhluta, 49-34, en Fjölnir náði 18-2 kafla á rúmum tveimur mínútum undir lok leikhlutans og leiddi að honum loknum 56-61.
Munurinn jókst enn frekar í upphafi 4. leikhluta en Fjölnir komst í 57-69 áður en Hamarsmenn tóku við sér. Heimamenn náðu að minnka muninn í 71-73 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum en lengra komust þeir ekki og Fjölnir skoraði sjö stig gegn tveimur á lokamínútunum.
Darri Hilmarsson var stigahæstur hjá Hamri með 17 stig, Ellert Arnarson skoraði 15, Kjartan Kárason 11 og Andre Dabney 10. Svavar Páll Pálsson var sterkur undir körfunum og tók 14 fráköst auj þess að skora 5 stig.