Fjölnismenn lásu yfir ungmennunum

Sæþór Atlason skoraði 6 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss tapaði naumlega fyrir Fjölni í Grill-66 deild karla í handbolta, en liðin mættust í Set-höllinni í kvöld.

Selfoss-U hafði forystuna allan fyrri hálfleikinn og undir lok fyrri hálfleiks var staðan orðin fjögur mörk. Staðan var 17-14 í hálfleik.

Fjölnismenn komu sér inn í leikinn strax í upphafi seinni hálfleiks og jöfnuðu 19-19. Leikurinn var jafn og spennandi eftir það en á síðustu tíu mínútunum lásu Fjölnismenn yfir Selfyssingunum ungu og náðu fjögurra marka forskoti, 28-32. Selfoss-U nálgaðist Fjölni í blálokin og minnkuðu muninn í 32-33 á síðustu sekúndunum.

Sæþór Atlason og Tryggvi Sigurberg Traustason voru markahæstir Selfyssinga í kvöld með 6 mörk, Jason Dagur Þórisson skoraði 4, Gunnar Flosi Grétarsson, Hans Jörgen Ólafsson og Haukur Páll Hallgrímsson 3, Richard Sæþór Sigurðsson, Gunnar Kári Bragason og Vilhelm Freyr Steindórsson 2 og Árni Ísleifsson 1. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 11 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson varði 5.

Selfoss-U er í 8. sæti deildarinnar með 9 stig en Fjölnir er í 5. sæti með 12 stig.

Fyrri greinSamningur um nýjan leikskóla undirritaður
Næsta greinRagnar með tröllatvennu