Hamar tapaði fyrir Fjölni í kaflaskiptum leik í 1. deild kvenna í körfubolta í dag. Lokatölur í Frystikistunni í Hveragerði urðu 55-72.
Fyrsti leikhluti var jafn en í 2. leikhluta náði Fjölnir góðu forskoti og leiddi 29-38 í leikhléi. Fjölniskonur gerðu svo endanlega út um leikinn í 3. leikhluta þar sem Hamar skoraði aðeins sjö stig gegn 25 stigum gestanna, 36-63. Hamarskonur klóruðu í bakkann í síðasta fjórðungnum en munurinn var orðinn of mikill.
Álfhildur Þorsteinsdóttir var besti leikmaður Hamars í leiknum og tók 16 fráköst. Aðrar létu minna að sér kveða.
Hamar er áfram í 6. sæti deildarinnar með 2 stig.
Tölfræði Hamars: Gígja Marín Þorsteinsdóttir 12, Bjarney Sif Ægisdóttir 11, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 10/16 fráköst, Vilborg Óttarsdóttir 7, Helga Sóley Heiðarsdóttir 6/5 fráköst, Katrín Eik Össurardóttir 5/4 fráköst, Adda María Óttarsdóttir 2, Fríða Margrét Þorsteinsdóttir 1, Sóley Gíslína Guðgeirsdóttir 1.