Í kvöld kl. 19 fer fram fjórða mót Meistaradeildar í hestaíþróttum. Þá verður keppt í slaktaumatölti og fljúgandi skeiði í gegnum höllina á Ingólfshvoli í Ölfusi.
Reikna má með harðri keppni í báðum greinum þar sem margir sterkir hestar eru skráðir til leiks í hvorri grein.
Það voru þau Hulda Gústafsdóttir og Sveigur frá Varmadal sem sigruðu slaktaumatöltið í fyrra. Fljúgandi skeiðið sigruðu þeir Sigurbjörn Bárðarson og Flosi frá Keldudal. Þau Hulda og Sigurbjörn mæta til leiks í kvöld með sömu hesta og munu eflaust blanda sér í toppbaráttuna.
Forsala aðgöngumiða er hafin í verslunum Líflands, Top Reiter og Baldvini og Þorvaldi á Selfossi og er aðgangseyrir 1.500 krónur.