Karlalið Hamars er komið í 8-liða úrslit Poweradebikarsins í körfubolta eftir góðan sigur á Þór Akureyri í Hveragerði í kvöld. Lokatölur voru 100-96.
Hamar skoraði fyrstu fjögur stig leiksins en Þórsarar svöruðu með tólf stigum í röð og höfðu forystuna út leikhlutann, 16-21. Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta en um hann miðjan skoruðu Hvergerðingar ellefu stig í röð og breyttu stöðunni í 39-32. Staðan í hálfleik var 46-39.
Þriðji leikhluti hófst á stórskotahríð gestanna sem komust yfir aftur með því að skora 11 stig í röð, 48-50. Hamar komst strax yfir aftur og leiddi út 3. leikhluta en staðan var 78-73 þegar honum lauk. Hamar hafði forystuna allan síðasta fjórðunginn en gestirnir önduðu niður um hálsmálið á þeim, eingöngu fyrir tilstilli Eric Palm sem skoraði sextán stig í röð fyrir Þór.
Palm minnkaði muninn í 90-89 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en nær komust gestirnir ekki. Hamar komst í 99-91 og þrátt fyrir að hitta illa af vítalínunni á lokamínútunni höfðu Hvergerðingar sigur – sinn fjórða í röð.
Louie Kirkman skoraði 27 stig fyrir Hamar í kvöld en maður leiksins var Ragnar Nathanaelsson með 24 stig og 21 frákast. Lárus Jónsson skoraði 16 stig og Halldór Gunnar Jónsson 10.