Fjör í fyrri hálfleik

Valdís Una Guðmannsdóttir og Hana Ivanusa í baráttu undir körfunni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór tók á móti Selfossi í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Þetta var fyrsti opinberi leikur þessara nágrannaliða frá upphafi.

Hamar/Þór lék í úrvalsdeildinni í vetur en Selfyssingar í 1. deildinni. Þrátt fyrir gæðamun á liðunum ætluðu Selfyssingar ekki að láta valta yfir sig í kvöld og fyrri hálfleikurinn var fjörugur. Hamar/Þór leiddi 25-15 eftir 1. leikhluta en Selfoss kom til baka í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 42-41.

Hákon Þór Hjartarson, þjálfari Hamars/Þórs, tók upp gamla hárblásarann sinn í hálfleik og það var allt annað að sjá til hans kvenna eftir hlé. Þær spiluðu hörkuvörn og náðu hratt að byggja upp gott forskot. Munurinn var kominn í 30 stig í upphafi 4. leikhluta og lokatölur leiksins urðu 99-61.

Abby Beeman var allt í öllu í liði Hamars/Þórs, hún skoraði 29 stig, tók 9 fráköst og sendi 12 stoðsendingar. Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 15 stig og tók 9 fráköst. Hjá Selfyssingum var Donasja Scott stiga- og framlagshæst með 20 stig og 15 fráköst. Valdís Una Guðmannsdóttir skoraði 13 stig.

Næsti leikur liðanna er í Vallaskóla á Selfossi á mánudagskvöld.

Hamar/Þór-Selfoss 99-61 (25-15, 17-26, 37-13, 20-7)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 29/9 fráköst/12 stoðsendingar, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 15/9 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 13, Hana Ivanusa 12/18 fráköst, Bergdís Anna Magnúsdóttir 9/5 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 8, Gígja Rut Gautadóttir 6/5 fráköst, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 4, Andrea Ösp Gunnsteinsdóttir 3.
Tölfræði Selfoss: Donasja Scott 20/15 fráköst, Valdís Una Guðmannsdóttir 13, Perla María Karlsdóttir 6, Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir 6, Eva Rún Dagsdóttir 5, Anna Katrín Víðisdóttir 5, Þóra Auðunsdóttir 4, Vilborg Óttarsdóttir 2, Elín Þórdís Pálsdóttir 4 fráköst.

Fyrri greinBesti árangur kvennaliðs Selfoss frá upphafi
Næsta greinArna Ír ráðin til SASS