Gnúpverjinn Valgerður Einarsdóttir Hjaltested, Bogfimifélaginu Boganum, vann Íslandsmeistaratitlinn í sveigboga kvenna á Íslandsmeistaramótinu utandyra í bogfimi sem haldið var á Hamranesvelli í Hafnarfirði um síðustu helgi.
Ekki nóg með það heldur vann Valgerður annan Íslandsmeistaratitil í félagsliðakeppni sveigboga ásamt liðsfélögum sínum í BFB, setti Íslandsmet félagsliða og náði bronsverðlaunum í sveigboga óháð kyni.
Valgerður mætti Marín Anítu Hilmarsdóttur, BFB, í úrslitaleik í sveigboga kvenna. Viðureignin var mjög spennandi, fyrstu lotu lauk með jafntefli, Marín tók næstu tvær lotur og staðan orðin 5-1 fyrir henni en Valgerður vann þá tvær lotur í röð, jafnaði 5-5 og knúði fram bráðabana, ein ör og sú sem er nær miðju er Íslandsmeistari. Marín skaut fyrst í 8 og Valgerður skaut næst og hitti í 9 og tók því Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn í röð utandyra og fjórða titil sinn í röð, þar sem hún vann bæði Íslandsmeistaratitlana innandyra og utandyra í sveigboga kvenna 2023 og 2024.
Þetta var ekki eini bráðabani Valgerðar á mótinu. Í keppni óháð kyni tapaði hún í bráðabana um að komast í úrslitaleikinn og lék því um bronsið. Þar mætti hún Georg Elfarssyni, ÍF Akri, og sigraði 6-2.
Í gull úrslitum félagsliða lék Valgerður með liðsfélögum sínum í BFB, þeim Ragnari Þór Hafsteinsyni og Marín Anítu. Þau léku frábærlega í undankeppninni og settu Íslandsmet félagsliða þar sem þau náðu 1.592 stigum. Í úrslitaleiknum mættu þau svo ÍFA frá Akureyri og sigruðu örugglega, 6-0 og tryggðu sér Íslandsmeistartitil félagsliða.