Fjórði sigur KFR í röð

Heiðar Óli var bestur hjá KFR og Hjörvar markahæstur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR hefur verið á miklu skriði í 4. deild karla í knattspyrnu og í kvöld vann liðið sinn fjórða leik í röð þegar GG kom í heimsókn á Hvolsvöll.

Þar með gerðu Rangæingar út um vonir GG að komast í úrslitakeppnina. KFR á reyndar heldur ekki möguleika á úrslitasæti eftir slaka byrjun í sumar en liðið er nú heldur betur komið í gang.

Baldur Steindórsson og Aron Birkir Guðmundsson skoruðu fyrir KFR í fyrri hálfleik og staðan var 2-0 í leikhléi.

Það var hart barist í seinni hálfleik og um hann miðjan fengu gestirnir vítaspyrnu. Tumi Tómasson tók vítaskyttu GG á taugum og boltinn endaði í þverslánni.

Á 72. mínútu skoraði Heiðar Óli Guðmundsson þriðja mark KFR eftir hornspyrnu og þremur mínútum síðar kom Jou Calzada KFR í 4-0 eftir vel útfærða skyndisókn.

Rangæingar slökuðu heldur betur á í kjölfarið og þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoruðu gestirnir tvö mörk á sömu mínútunni. Það fór heldur betur skjálfti um leikmenn KFR í kjölfarið og GG var nálægt því að minnka muninn enn frekar en heimamenn fundu fókusinn aftur og lönduðu sætum sigri.

KFR er í 5. sæti A-riðils emð 18 stig en GG er í 4. sætinu með 19 stig.

Fyrri greinEnn eitt svekkelsið hjá Selfyssingum
Næsta greinÆtlaði að verða búðarkona