Fjórir leikmenn skrifuðu undir samning við knattspyrnudeild Selfoss í síðustu viku, þeir Ingi Rafn Ingibergsson, Adam Örn Sveinbjörnsson, Arilíus Óskarsson og Valdimar Jóhannsson.
Ingi Rafn er leikjahæstur núverandi leikmanna Selfoss en hann hefur leikið 260 meistaraflokksleiki fyrir félagið, þann fyrsta árið 2002. Ingi Rafn hefur einnig leikið með ÍBV en frá árinu 2010 með Selfossi ef undan er skilið tímabilið 2012 þegar hann var lánaður í Ægi. Ingi, sem er 36 ára, getur leyst ýmsar stöður í sókninni en hann hefur skorað 49 mörk fyrir Selfoss á ferlinum.
Adam Örn er 21 árs gamall varnarmaður sem fór í gegnum alla yngri flokkana á Selfossi og hefur verið í æfingahóp meistaraflokks undanfarin ár. Hann var lánaður í Ægi í fyrra þar sem hann lék 16 leiki í 3. deildinni og skoraði í þeim tvö mörk.
Arilíus, sem er sóknarmaður, er einnig 21 árs og uppalinn á Selfossi. Hann kemur til félagsins frá Árborg þar sem hann hefur spilað 16 leiki í 4. deildinni undanfarin tvö ár og skorað í þeim tvö mörk.
Valdimar er 18 ára kantmaður sem spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í lokaleik Inkasso-deildarinnar sumarið 2018. Þetta er fyrsta heila undirbúningstímabil Valdimars með meistaraflokki en hann er enn gjaldgengur í 2. flokk.