Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðni Fjóluson, Guðmundur Þórarinsson og Viðar Örn Kjartansson eru allir í leikmannahópi A-landsliðsins í knattspyrnu fyrir komandi vináttulandsleiki.
Ísland mætir Mexíkó 30. maí í Dallas í Bandaríkjunum, strákarnir fara næst til Færeyja og mæta þar heimamönnum 4. júní og loks til Póllands þar sem þeir leika gegn Pólverjum 8. júní.
Jón Daði er sá eini fjórmenninganna sem boðaður er í alla leikina en Jón Guðni, Guðmundur og Viðar munu ekki ferðast til Bandaríkjanna en verða með gegn Færeyjum og Póllandi.
Af Sunnlendingunum er Jón Daði leikjahæstur, hann hefur spilað 57 A-landsleiki og skorað 3 mörk, Viðar Örn hefur leikið 28 A-landsleiki og skorað 4 mörk, Jón Guðni hefur spilað 17 A-landsleiki og skorað eitt mark og Guðmundur hefur leikið 5 A-landsleiki en bíður ennþá eftir fyrsta markinu.