
Geirþrúður Sighvatsdóttir, Guðný Rósa Magnúsdóttir, Sveinn Sæland og Helgi Kjartansson voru öll sæmd starfsmerki Ungmennafélags Íslands á 103. héraðsþingi HSK í Aratungu í síðustu viku.
Geirþrúður hefur setið í ritstjórn Litla-Bergþórs, blaðs Umf. Biskupstungna, í 34 ár af 55 ára sögu blaðsins, Guðný Rósa hefur um árabil unnið að menningarmálum með leikdeild Umf. Biskupstungna og Sveinn hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum hjá Umf. Biskupstungna, Golfklúbbi Flúða og setið í stjórn HSK.
Helgi hefur tekið virkan þátt í starfsemi Umf. Hvatar í Grímsnesi og Umf. Biskupstungna, meðal annars sem formaður félagsins. Hann hefur setið í glímunefnd og varastjórn HSK og var um tíma formaður Glímusambands Íslands. Hann er tvöfaldur Skjaldarhafi Skarphéðins og þrefaldur Landsmótsmeistari í glímu.