Selfoss heimsótti Val að Hlíðarenda í Olísdeild-kvenna í handbolta í dag. Valsliðið reyndist sterkara í dag en lokatölur urðu 28-14.
Jafnræði var með liðunum framan af leiknum og lítið skorað en Valur leiddi 5-4 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Markvörður Vals lokaði hins vegar markinu undir lok fyrri hálfleiks og Valur náði fimm marka forskoti. Staðan í hálfleik var 12-7.
Valskonur völtuðu síðan yfir Selfyssinga á upphafsmínútum síðari hálfleiks með 9-1 leikkafla þar sem þær breyttu stöðunni úr 12-7 í 21-8. Selfoss átti ekki afturkvæmt eftir þetta áhlaup Vals og lokatölur urðu 28-14.
Kara Rún Árnadóttir var markahæst Selfyssinga með 5 mörk, Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 2 og þær Hrafnhildur H. Þrastardóttir, Hildur Öder Einarsdóttir, Thelma Sif Kristjánsdóttir, Helga Rún Einarsdóttir, Hulda Dís Þrastardóttir, Tinna S. Traustadóttir og Dagmar Öder Einarsdóttir skoruðu allar eitt mark. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 10 skot í markinu.