Flautumark í framlengingu tryggði gestunum sigur

Katla María Magnúsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss í handbolta er komið í sumarfrí eftir hetjulega baráttu og hrikalega svekkjandi tap í oddaleik gegn ÍR í sex liða úrslitum Íslandsmótsins í Set-höllinni í kvöld.

Úrslitin réðust með flautumarki gestanna eftir framlengingu. ÍR sigraði 27-28 og einvígið þar með 1-2.

Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn en Selfoss leiddi í hálfleik, 11-10. ÍR skoraði fyrstu fjögur mörkin í seinni hálfleik en Selfoss jafnaði 15-15 þegar tíu mínútur voru liðnar af honum. Eftir það var allt í járnum en Selfyssingar jöfnuðu 22-22 á lokamínútunni og því var framlengt.

Jafnt var á öllum tölum í framlengingunni en Selfoss jafnaði 27-27 þegar tíu sekúndur voru eftir. ÍR átti lokasóknina og þær skoruðu um leið og lokaflautan gall og var markið staðfest með myndbandsdómgæslu. Svekkjandi tap hjá Selfyssingum eftir frábæran leik.

Hulda Dís Þrast­ar­dótt­ir og Katla María Magnús­dótt­ir voru markahæstar Selfyssinga með 9 mörk, þar af skoraði Hulda 8 af vítalínunni. Sara Dröfn Rík­h­arðsdótt­ir skoraði 3 mörk, Hulda Hrönn Braga­dótt­ir og Arna Krist­ín Ein­ars­dótt­ir 2 og þær Eva Lind Tyrf­ings­dótt­ir og El­ín­borg Katla Þor­björns­dótt­ir skoruðu 1 mark hvor.

Ágústa Tanja Jó­hanns­dótt­ir varði 10 skot í marki Selfoss.

Fyrri greinRagnhildur fékk aðalvinninginn
Næsta greinVor í Árborg og sumarið að koma