Lið Flóaskóla varð í 3. sæti í Skólahreysti en úrslitakvöld keppninnar var í Mýrinni í Garðabæ í kvöld og sjónvarpað beint í Ríkissjónvarpinu.
Liðsmenn Flóaskóla voru ofarlega í öllum keppnisgreinunum og Íslandsmethafinn Erlín Katla Hansdóttir sigraði meðal annars örugglega í hreystigreip. Hún lét sér nægja að hanga í 7:18 mínútur mínútur en Íslandsmet hennar síðan í undankeppninni er 16:57 mínútur.
Heiðarskóli í Reykjanesbæ sigraði keppnina í kvöld með 64 stig og var aðeins 0,5 stigum á undan Laugalækjarskóla sem hlaut 63,5 stig. Flóaskóli lauk keppni með 55,5 stig.
Grunnskólinn á Hellu átti einnig lið á úrslitakvöldinu og varð liðið í 8. sæti með 30,5 stig. Tólf skólar komust í úrslit.
Í liði Flóaskóla eru þau Sigurjón Reynisson, Erlin Katla Hansdóttir, Hanna Dóra Höskuldsdóttir og Viðar Hrafn Viktorsson. Lið Grunnskólans á Hellu skipuðu þau Veigar Þór Víðisson, Anna Lísa Þórhallsdóttir, Jóna Kristín Þórhallsdóttir og Helgi Srichakham Haraldsson.