Flóðgáttirnar opnuðust á Hvolsvelli – Árborg lenti í Ísbirninum

Hjörvar Sigurðsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga vann stórsigur á Afríku í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en Árborg gerði jafntefli við Ísbjörninn.

Á Hvolsvelli kom Ívan Breki Sigurðsson KFR yfir gegn Afríku á 9. mínútu og fimm mínútum síðar voru bæði Trausti Rafn Björnsson og Hjörvar Sigurðsson búnir að skora, og staðan orðin 3-0. Przemyslaw Bielawski skoraði fjórða markið á 40. mínútu og staðan var 4-0 í leikhléi.

KFR hafði áfram góð tök á leiknum í seinni hálfleik þó að bið yrði á næstu mörkum, en þegar tuttugu mínútur voru eftir opnuðust flóðgáttirnar. Helgi Valur Smárason og Ívan Breki skoruðu með þriggja mínútna millibili og á síðustu fjórum mínútum leiksins bætti Hjörvar við tveimur mörkum og innsiglaði þar þrennuna. Lokatölur urðu 8-0.

Það var hart barist á gervigrasinu við Kórinn í Kópavogi, þar sem Árborg var á Ísbjarnarslóðum. Ísak Eldjárn Tómasson kom Árborg yfir á 29. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Hlutirnir gerðust svo hratt um miðjan seinni hálfleikinn þegar þrjú mörk voru skoruð á átta mínútna kafla. Ísbjörninn jafnaði á 58. mínútu, fjórum mínútum síðar kom Árni Páll Hafþórsson Árborg í 1-2 en aftur liðu fjórar mínútur og þá jafnaði Ísbjörninn. Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og lokatölur urðu 2-2.

Árborg og KFR eru saman í riðli í 4. deildinni. Árborg er í 2. sæti riðilsins með 4 stig en KFR er í 3. sæti með 3 stig.

Fyrri greinEldur kviknaði í blómakeri
Næsta greinGóðar gjafir frá Lions á ljósmæðravaktina