Selfoss og Afturelding skildu jöfn, 29-29, í hörkuleik í Olísdeild karla í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.
„Það sem ég tek úr úr þessu er að það er flott hjá okkur að koma til baka og hætta ekki. Við hefðum alveg getað fengið tvö stig en það hefði kannski ekki verið sanngjarnt. Ég held að við eigum eftir að bæta okkur. Útilínan var ekki góð hjá okkur í kvöld, hún var ekkert spes. Við vöxum þegar líður á mótið,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Afturelding hafði frumkvæðið lengst af og náði mest fjögurra marka forskoti sem þeir héldu vel inn í seinni hálfleikinn. Staðan í leikhléi var 15-17.
Á lokakaflanum svöruðu Selfyssingar hins vegar fyrir sig og náðu að jafna 25-25 þegar átta mínútur voru eftir. Eftir það var jafnt á öllum tölum en Afturelding átti síðustu sókn leiksins þar sem Pawel Kiepulski, markvörður Selfoss, varði þrjú skot á síðustu ellefu sekúndunum og tryggði Selfyssingum eitt stig í baráttunni.
Selfoss, Afturelding og FH hafa nú öll fimm stig í 1.-3. sæti deildarinnar.
Haukur sterkur í vörn og sókn
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Alexander Egan skoraði 6, Einar Sverrisson 5/1, Haukur Þrastarson 4, Árni Steinn Steinþórsson 3, Hergeir Grímsson 2 og þeir Atli Ævar Ingólfsson og Pawel Kiepulski skoruðu sitt markið hvor.
Árni Steinn og Haukur Þrastar voru fremstir í flokki í vörninni með átta brotin fríköst hvor og þeir voru sömuleiðis stoðsendingahæstir með fjórar stoðsendingar á mann.
Pawel Kiepulski varði 12 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 7/1 skot og var með 27% markvörslu.