Þorlákshafnar-Þórsarar eru komnir upp í 3. sæti Domino's-deildarinnar í körfubolta eftir góðan heimasigur á KR í kvöld, 102-88.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en gestirnir voru skrefinu á undan og leiddu 26-30 að tíu mínútnum liðnum. Þá tók við kaflaskiptur 2. leikhluti þar sem Þórsarar tóku vel við sér og með því að skora sex síðustu stigin í fyrri hálfleik tryggðu þeir sér sjö stiga forskot í hálfleik, 50-43.
Síðari hálfleikur var jafn en Þórsarar héldu sínu forskoti og bættu síðan vel í undir lokin. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum keyrðu þeir í 12-2 áhlaup og breyttu þar stöðunni úr 87-79 í 99-81 og KR-ingar áttu engin svör.
Þórsarar áttu fínan leik í kvöld en fremstur í flokki var Robert Diggs með 20 stig. Guðmundur Jónsson skoraði 19, Benjamin Smith 14, Grétar Ingi Erlendsson og Baldur Þór Ragnarsson 13, Darri Hilmarsson 9, Darrell Flake 8, Emil Karel Einarsson 5 og Vilhjálmur Atli Björnsson 1.
Með sigrinum fór Þór upp í 3. sæti Domino’s-deildarinnar með átta stig. Þeir taka á móti Fjölni í deildinni á föstudagskvöld.