Selfoss heimsótti Gróttu á Seltjarnarnes í níundu umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta í kvöld. Þetta var síðasti leikur ársins í úrvalsdeildinni en hlé er gert á henni vegna Evrópumótsins sem hefst í lok mánaðarins.
Leikurinn var jafn fyrsta korterið en á síðustu fimmtán mínútum fyrri hálfleiks náði Selfoss þriggja marka forskoti og leiddi 9-12 í hálfleik.
Selfoss jók muninn í fjögur mörk í upphafi seinni hálfleiks en þá kom góður kafli hjá Gróttu sem skoraði fjögur mörk í röð og jafnaði 16-16. Selfyssingar voru hins vegar skrefinu á undan á síðustu tíu mínútunum en Grótta fékk tækifæri til þess að jafna á lokamínútunni. Það rann þeim úr greipum og Selfoss sigraði 18-20.
Eva Lind Tyrfingsdóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og Katla María Magnúsdóttir voru markahæstar Selfyssinga með 5 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 2, Hulda Dís Þrastardóttir 2/2 og Hulda Hrönn Bragadóttir 1.
Cornelia Hermansson átti frábæran leik í marki Selfoss, varði 17 skot og var með 50% markvörslu.
Selfossliðið er komið í frí fram yfir áramót og er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 8 stig. Grótta er á botninum með 4 stig. Næsti leikur liðsins er 4. janúar gegn Val á Selfossi.