Flottur sigur í fjörugum leik

Anna Katrín Víðisdóttir skoraði 16 stig og tók 6 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti Keflavík-b í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld. Eftir fjörugan leik unnu Selfyssingar góðan sigur, 84-74.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en Selfoss leiddi 26-20 að honum loknum. Jafnræðið hélt áfram inn í 2. leikhlutann en Selfoss átti góðan sprett undir lok hans og staðan í hálfleik var 47-38.

Selfoss gerði 12-2 áhlaup í upphafi 3. leikhluta og breytti stöðunni í 59-42 en Keflvíkingar játuðu sig ekki sigraðar og minnkuðu muninn í átta stig. Selfoss svaraði fyrir sig og jók forskotið aftur og eftir það var leikurinn var í traustum höndum heimakvenna. Þær höfðu öruggt forskot en Keflavík-b skoraði síðustu sjö stigin í leiknum og minnkuðu þá muninn í tíu stig.

Donasja Scott var allt í öllu hjá Selfyssingum, skoraði 34 stig og tók 16 fráköst.

Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 6 stig en Keflavík-b er á botninum með 2 stig.

Selfoss-Keflavík b 84-74 (26-20, 21-18, 16-13, 21-23)
Tölfræði Selfoss: Donasja Scott 34/16 fráköst, Anna Katrín Víðisdóttir 16/6 fráköst, Eva Rún Dagsdóttir 11/8 fráköst/5 stoðsendingar, Valdís Una Guðmannsdóttir 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Perla María Karlsdóttir 4, Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir 4, Lilja Heiðbjört Valdimarsdóttir 3, Þóra Auðunsdóttir 2, Elín Þórdís Pálsdóttir 2.

Fyrri greinSeinni hálfleikurinn erfiður
Næsta grein„Árnar þagna“ á Þingborg í kvöld