Flugeldasýning í Þorlákshöfn

Adomas Drungilas var magnaður í kvöld og tók 24 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn mun leika til úrslita gegn Keflavík á Íslandsmótinu í körfubolta. Þór vann Stjörnuna í oddaleik 92-74 í Þorlákshöfn í kvöld og þeir grænu unnu einvígið 3-2.

Stjarnan byrjaði betur í leiknum og það var ekki fyrr en um miðjan 2. leikhluta að Þórsarar vöknuðu til lífsins. Þeir spiluðu frábæra vörn undir lok fyrri hálfleiks og breyttu stöðunni úr 31-44 í 44-47 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Flugeldasýningin hófst svo fyrir alvöru í seinni hálfleiknum þar sem Þór byrjaði á 12-0 áhlaupi og staðan orðin 56-47. Stjörnumenn gáfust ekki upp og náðu að jafna 61-61 en þá hrukku Þórsarar aftur í gang. Þeir skoruðu síðustu fjögur stigin í 3. leikhluta og áttu svo ótrúlegan kafla í upphafi þess fjórða þar sem þeir skoruðu 17 stig gegn tveimur og gerðu þar með út um leikinn. Stjarnan átti engin svör á lokakaflanum og Græni drekinn sá til þess að stemningin í húsinu var stórkostleg.

Adomas Drungilas átti magnaðan leik fyrir Þór og reif niður 24 fráköst, auk þess að skora 7 stig. Hans framlag undir körfunni skipti sköpum í þessum leik. Larry Thomas var stigahæstur með 23 stig og Styrmir Snær Þrastarson átti sömuleiðis frábæran leik með 21 stig.

Einvígi Þórs og Keflavíkur hefst í Keflavík næstkomandi miðvikudagskvöld. Leikur tvö verður í Þorlákshöfn á laugardagskvöld.

Tölfræði Þórs: Larry Thomas 23/5 fráköst/5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 21/7 fráköst, Callum Lawson 15/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 9, Halldór Garðar Hermannsson 8, Adomas Drungilas 7/24 fráköst, Emil Karel Einarsson 4, Davíð Arnar Ágústsson 3, Tómas Valur Þrastarson 2.

Fyrri greinFramboðslisti Sjálfstæðisflokksins samþykktur
Næsta greinTíu sentimetra jafnfallinn snjór í Þakgili