Selfyssingar unnu hreint út sagt magnaðan sigur á ÍBV í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 30-28, í Hleðsluhöllinni á Selfossi.
„Ég horfi töluvert á aðra leiki en þessi stemmning sem var í gangi hérna í kvöld var frábær. Ég tek það ekki af Eyjamönnum að þeir spiluðu vel en fólkið okkar hafði trú á okkur og hjálpaði okkur upp brekkuna. Maður sér það alltaf í svona erfiðleikum hverjir standa með okkur og fólkið gerði það í kvöld,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfoss skoraði þrjú síðustu mörkin
ÍBV var yfir nánast allan leikinn, staðan var 14-16 í leikhléi, og Eyjamenn héldu forystunni nánast út leikinn. Síðustu tíu mínúturnar tóku Selfyssingar hins vegar öll völd og breyttu stöðunni úr 24-27 í 30-28 sem urðu lokatölur leiksins. Selfoss gerði 6-1 áhlaup og skoraði þrjú síðustu mörkin í leiknum.
Þakið var við það að fara af Hleðsluhöllinni á lokakaflanum þegar afmælisbarnið Guðjón Baldur Ómarsson innsiglaði sigurinn á lokasekúndunum.
Sóknin frábær – markvarslan engin
Elvar Örn Jónsson var frábær í liði Selfoss í kvöld, skoraði 9/1 mark og var sterkur í vörninni. Haukur Þrastarson skoraði 5/1 mörk og sendi 6 stoðsendingar, Einar Sverrisson skoraði 4/1 mörk og var frábær í vörninni, Guðjón Baldur Ómarsson skoraði 4 mörk og það gerði líka Nökkvi Dan Elliðason í sínum fyrsta heimaleik fyrir Selfoss. Virkilega góð innkoma þar. Atli Ævar Ingólfsson og Guðni Ingvarsson skoruðu síðan báðir 2 mörk af línunni.
Selfossliðið fékk enga aðstoð frá markvörðunum sínum í kvöld en Pawel Kiepulski varði 2 skot og var með 9,1% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 1 skot.
Að loknum fimmtán umferðum er Selfoss í 3. sæti deildarinnar með 22 stig en ÍBV er í 6. sæti með 13 stig.