Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, bauð fulltrúum aðildarfélaga Ungmennafélags Íslands í heimsókn á Bessastaði í tilefni af Alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans sem er í dag, 5. desember.
Rúmlega þrjátíu fulltrúar aðildarfélaga UMFÍ gátu komið í boðið á Bessastöðum. Starfsemi UMFÍ er borin uppi af sjálfboðaliðum, hvort heldur eru Landsmót UMFÍ 50+, árlegt Unglingalandsmótið sem margir þekkja, Hreyfivika UMFÍ og margar uppákomu og viðburði á vegum aðildarfélaga UMFÍ um land allt með ræktun lands og lýðs að leiðarljósi.
Guðni minntist langafa síns, alþýðufræðarans Guðmundur Hjaltasonar (1853-1919), sem var mikill og ötull talsmaður ungmennafélagshreyfingarinnar og átti drjúgan hlut í að koma henni á laggirnar.
Örn Guðnason, varaformaður UMFÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhentu forseta Íslands fallegar gjafir; Eintak af bókinni Vormenn Íslands, sem fjallar um sögu Ungmennafélagshreyfingarinnar, bók um sögu landsmóta UMFÍ, treyju með merki UMFÍ, eintak af ársskýrslu UMFÍ og tvö síðustu tölublöð Skinfaxa, tímarits UMFÍ. Skinfaxi kom fyrst út árið 1909 og er það tímarit sem hefur komið samfellt lengst út á Íslandi.
Frá þessu er greint á heimasíðu UMFÍ þar sem sjá má myndir frá heimsókninni.