Kvennalið Selfoss tapaði 27-28 fyrir Val í Olísdeildinni í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld. Lokakaflinn var vægast sagt dramatískur.
„Þetta er ótrúlega svekkjandi. Við erum með þennan leik þegar það eru tvær mínútur eftir, tveimur mörkum yfir. Við förum rosalega illa að ráði okkar í tveimur sóknum og töpum boltanum mjög ódýrt og gefum þeim boltann eftir nokkurra sekúndna sókn. Ég var alveg að fara að taka leikhlé í lokasókninni þegar við töpum boltanum. Þetta er hrikalega fúlt,“ sagði Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Valur skoraði sigurmarkið með flautumarki á lokasekúndunni og voru Selfyssingar mjög ósáttir við að markið hefði verið dæmt gilt.
„Ég fullyrði það að þessi bolti var ekki inni þarna í lokin. Það sáu það allir í húsinu nema dómararnir tveir. Við hefðum átt skilið stig út úr þessu og ég er rosalega stoltur af stelpunum. Frábær leikur,“ sagði Örn en Selfoss hafði náð að vinna upp sjö marka forskot Vals og komast tveimur mörkum yfir í lokin.
„Það var tíu mínútna kafli í fyrri hálfleik þar sem við förum út úr planinu okkar og gefum þeim sex hraðaupphlaup í röð. Þá myndast þessi munur en við fórum yfir það í hálfleik og náðum svo að stoppa þetta. Við vorum hrikalega góðar í seinni hálfleik að ná að koma svona til baka,“ sagði Örn að lokum.
Unnu upp sjö marka forskot og rúmlega það
Leikurinn var jafn fyrsta korterið en þá tóku Valskonur á sprett og breyttu stöðunni úr 7-7 í 8-13. Staðan var 11-16 í leikhléi. Valur byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði sjö marka forskoti, 13-20, en þá kviknaði aftur baráttuhugur hjá Selfyssingum sem stóðu vörnina vel og sóknarleikurinn var árangursríkur.
Selfoss jafnaði 25-25 þegar fimm mínútur voru eftir og komust svo tveimur mörkum yfir í kjölfarið. Þær vínrauðu sváfu hins vegar á verðinum á lokakaflanum og misstu boltann tvívegis klaufalega þannig að Valur jafnaði og fékk færi á sigurmarkinu í lokasókninni.
Lovísa Thompson skaut svo að marki og boltinn söng í netinu um leið og lokaflautan gall en nokkrum sekúndum fyrr hafði Valur fengið að framkvæma aukakast með mann fyrir innan punktalínu, án þess að dómararnir tækju eftir því.
Hulda sterk í vörn og sókn
Sarah Boye Sörensen var markahæst Selfyssinga í kvöld með 6 mörk, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoraði 5/2, Perla Ruth Albertsdóttir og Hulda Dís Þrastardóttir skoruðu báðar 4 mörk og voru sömuleiðis sterkar í vörninni auk þess sem Hulda átti fimm stoðsendingar. Tinna Sigurrós Traustadóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoruðu báðar 3 mörk og þær Carmen Palamariu og Rakel Guðjónsdóttir skoruðu 1 mark hvor.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 9 skot og var með 26% markvörslu.