Selfoss tryggði veru sína í Pepsideild kvenna í knattspyrnu í dag þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við HK/Víking á heimavelli.
„Mér fannst þetta mjög gott í heildina. Margt gott við frammistöðu liðsins og ég er ánægður að sjá Unni Dóru skora eftir erfið meiðsli. Það eru auðvitað frábær tíðindi fyrir okkur að vera áfram í efstu deild. Það er gaman að sjá þennan klúbb vinna áfram á þessum vettvangi og nóg til staðar hjá okkur til þess að byggja áfram ofan á,“ sagði Óttar Guðlaugsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfyssingar höfðu lengst af frumkvæðið í annars jöfnum leik og Unnur Dóra Bergsdóttir kom þeim yfir á 32. mínútu eftir glæsilegan samleik liðsins og sendingu innfyrir frá Grace Rapp. Selfoss fékk fín færi í kjölfarið en tókst ekki að skora og staðan var 1-0 í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks sótti HK/Víkingur í sig veðrið og þær áttu ágæt færi áður en Kader Hancar jafnaði metin á 59. mínútu með heppnismarki. Fyrirgjöf hennar frá endalínunni hægra megin sveif yfir Caitlyn Clem og boltinn lenti í markinu út við stöngina fjær.
Síðasta hálftímann stýrði Selfoss leiknum en tókst ekki að bæta við marki. Reyndar fengu bæði lið ágæt færi en jafntefli dugði þeim báðum til þess að tryggja sæti sitt í deildinni.