Lið Grunnskólans á Hellu lenti í 3. sæti í úrslitum Skólahreysti sem fram fóru í Laugardalshöllinni í síðustu viku. Þetta er í fyrsta sinn sem grunnskóli á Suðurlandi kemst á verðlaunapall á sjálfu úrslitakvöldinu.
Það var gríðarleg stemmning í Laugardalshöllinni þegar tólf bestu skólar landsins öttu kappi í Skólahreysti í beinni útsendingu á RÚV. Heiðaskóli fór með sigur af hólmi og Laugalækjaskóli lenti í öðru sæti, einu stigi á undan Grunnskólanum á Hellu.
Lið Grunnskólans á Hellu skipuðu þau Heiðar Óli Guðmundsson, Írena Rós Haraldsdóttir, Jóna Kristín Þórhallsdóttir og Almar Máni Þorsteinsson en varamenn voru Svandís Ósk Þórhallsdóttir og Sindri Freyr Seim Sigurðsson.
Þjálfarar liðsins eru Þorsteinn Darri Sigurgeirsson og Aníta Þorgerður Tryggvadóttir.