Keppendur HSK náðu frábærum árangri á frjálsíþróttavellinum á Unglingalandsmótinu á Selfossi þar sem þeir bættu m.a. sextán Unglingalandsmótsmet og níu héraðsmet.
Alls héldu keppendur HSK heim með 31 gullverðlaun, 21 silfurverðlaun og 11 bronsverðlaun.
Í flokki 11 ára sigraði Katharína Sybilla Jóhannsdóttir í hástökki, Helga Margrét Óskarsdóttir vann silfur í spjótkasti og brons í þrístökki, Ásta Sól Stefánsdóttir hreppti silfrið í kúluvarpi og Barbára Sól Gísladóttir bronsið. Þá vann Guðjón Baldur Ómarsson silfrið í spjótkasti.
Pétur Már Sigurðsson stóð sig vel í flokki tólf ára, vann gullið í hástökki og þrístökki þar sem hann setti Unglingalandsmótsmet, stökk 9,68 m. Pétur varð síðan annar í kúluvarpi og þriðji í langstökki. Stefán Narfi Bjarnason sigraði örugglega í kúluvarpinu með glæsilegu kasti upp á 9,15 m.
Í flokki þrettán ára var Halla María Magnúsdóttir einstaklega sigursæl. Hún vann fimm gullverðlaun, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Halla María sigraði í spjótkasti, 60 m grindahlaupi, kúluvarpi og 80 m hlaupi þar sem hún hljóp á 10,76 sek og sló þar Unglingalandsmótsmetið um leið og hún setti héraðsmet. Halla komst einnig á pall í 14 ára flokknum þar sem hún vann silfurverðlaun í kringlukasti. Þá var hún í sveit HSK í 4×100 m boðhlaup sem sigraði á nýju Unglingalandsmóts- og héraðsmeti, 55,18 sek. Ásamt Höllu skipuðu sveitina þær Harpa Svansdóttir, Hekla Björk Grétarsdóttir og Sunna Skeggjadóttir.
Harpa Svansdóttir sigraði í langstökki og átti sæti í boðhlaupssveitinni en vann auk þess eitt silfur og þrjú brons. Í undanrásum 60 m grindahlaups sló hún Unglingalandsmótsmetið auk þess sem hún setti héraðsmet þegar hún hljóp á 10,52 sek. Þá bætti hún einnig héraðsmetið í 600 m hlaupi, hljóp á 1:48,2 mín og varð þriðja.
Styrmir Dan Steinunnarson var tíður gestur á verðlaunapallinum í flokki 13 ára. Hann gerði sér lítið fyrir og bætti fjögur Unglingalandsmótsmet og eitt héraðsmet. Styrmir sigraði í 60 m grindahlaupi þar sem hann setti met í undanrásunum, 10,01 sek. Þá sló hann ULM-metin í hástökki, stökk 1,65 m, þrístökki, stökk 11,34 m og langstökki þar sem hann stökk 5,47 m. Auk þess sigraði Styrmir í kúluvarpi og hreppti silfrið í spjótkasti og 80 m hlaupi.
Í flokki 14 ára sigraði Teitur Örn Einarsson í tveimur greinum, spjótkasti og kringlukasti þar sem hann setti Unglingalandsmótsmet og kastaði 39,46 m. Þá vann hann silfurverðlaun í kúluvarpi og 800 m hlaupi. Fannar Ingvi Rafnarsson vann einnig tvö gullverðlaun í þessum flokki, sigraði í langstökki og þrístökki þar sem hann bætti Unglingalandsmótsmetið og stökk 11,38 m. Hann komst einnig á pall í 100 m hlaupi og hampaði þar silfurverðlaunum. Þá sigraði Sveinbjörn Jóhannsson í kúluvarpi 14 ára á glæsilegu Unglingalandsmótsmeti, 12,65 m.
Sigþór Helgason vann sex gullverðlaun í flokki 15 ára, setti þrjú Unglingalandsmótsmet og þrjú héraðsmet. Hann bætti ULM metin í þrístökki, stökk 12,47 m, hástökki, þar sem hann stökk 1,86 m og spjótkasti þar sem hann kastaði 60,76 m. Í tveimur síðastnefndu greinunum bætti hann einnig héraðsmetið í flokknum. Þá sigraði hann einnig í kúluvarpi, langstökki og kringlukasti. Auk þess bætti Sigþór héraðsmetið í 100 m grindahlaupi þegar hann hljóp á 15,01 sek í undanrásum.
Andrea Vigdís Victorsdóttir vann silfur í kringlukasti 15 ára og brons í spjótkasti.
Í flokki 16-17 ára sigraði Thelma Björk Einarsdóttir í kringlukasti á nýju Unglingalandsmótsmeti, 29,60 m. Thelma Björk hreppti svo bronsverðlaun í kúluvarpi.
Héraðsmetið í 4×100 m boðhlaupi í flokki 16-17 ára telpna var slegið en sveit HSK hljóp á 52,17 sek. Sveitina skipuðu þær Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Eva Lind Elíasdóttir, Elínborg Anna Jóhannsdóttir og Guðrún Heiða Bjarnadóttir. Auk þess vann Guðrún Heiða silfur í þrístökki, Eva Lind silfur í 100 m grindahlaupi og Sólveig Helga brons í 800 m hlaupi.
Ingibjörg Erla Grétarsdóttir sigraði í kúluvarpi 18 ára stúlkna og vann silfur í langstökki og spjótkasti.
Í flokki 18 ára pilta sigraði Guðmundur Kristinn Jónsson á nýju Unglingalandsmótsmeti, kastaði 51,87 m. Hafsteinn Davíðsson vann silfurverðlaun í kúluvarpi og Arnar Þór Halldórsson hreppti bronsið í 800 m hlaupi.
Í flokki fatlaðra vann Bjarni Friðrik Ófeigsson þrenn silfurverðlaun, í kúluvarpi, langstökki og 60 m hlaupi.
Stefán Narfi kastar 9,15 m til sigurs í kúluvarpi 12 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Halla María og Harpa voru fastagestir á verðlaunapallinum í 13 ára flokki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Styrmir Dan átti góða tilraun við Íslandsmet en rétt felldi 1,71 m. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Teitur Örn Einarsson sigraði í spjótkasti og kringlukasti 14 ára. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Sigþór Helgason steig sex sinnum á efsta þrep verðlaunapallsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl